Gustavsson.is - Fréttir - Andvökunótt á EM

  • Islenska
  • Deutch

Andvökunótt á EM

21.01.2013

*Ath. að þetta er gamalt blogg sem að ég póstaði á síðu Sport Elítunnar í janúar 2011..


Enn ein andvöku nóttin á EM og ég er kominn með leið á því að horfa á endalaust af bíómyndum eða þáttum til þess að reyna að sofna og gleyma leik kvöldsins (tap gegn Slóveníu) og ákvað því í staðinn að koma hugsununum frá mér og vona að það skili mér því að ég geti tekið skref í áttinu að því að byrja að geta eitthvað á þessu móti. Ég hef reynt allt til þess að verða fyrir sem flestum boltum til þessa með því að æfa ákveðna hluti, fá ráð frá öðrum, horfa á gamla leiki þar sem ég er að standa mig vel eða horfa á næsta andstæðing í 3-4 tíma á dag.

 

Þessir síðustu klukkutímar eftir leik hafa verið þeir erfiðustu á mínum handboltaferli og hef fengið mikla gagnrýni úr ýmsum áttum og hef gagnrýnt sjálfan mig persónulega mjög harkalega. Ég hef ekki konuna hjá mér hérna úti til að væla í þannig að ég ákvað því deila mínum hugsunum með þeim sem nenna að lesa þær. Ég hef þurft að þola mikla gagnrýni á mínum uppeldisárum og náði að krafsa mig út úr því og nýta mér gagnrýnina til góðs. Planið er að gera slíkt hið sama núna.

 

Ég barðist fyrir því í fjölda ára að fá að spila með landsliðinu í handbolta og dreymdi um að klæða mig í landsliðsbúninginn. Sá draumur varð að veruleika árið 2003 og síðan þá hef ég fengið gæsahúð í hvert skipti sem ég heyri þjóðsöngin eða hugsa um það að heil þjóð standi á bakvið okkur í landsliðinu. Mitt aðal markmið á hverju stórmóti er að gera fjölskyldu, vini og þjóðina stolta af mér og landsliðinu. Þjóðarstoltið er mjög ríkt í mér og er ég stoltur af því að vera íslendingur og það er besta tilfinning í heiminum að vita af því að þegar ég ver eða við vinnum að það sé að gleðja einhvern á Klakanum okkar góða.

 

Ég elska athyglina og get því ekki verið að væla yfir því þegar fólk eða fjölmiðlar séu að hrauna yfir mig. Það er eitthvað sem ég kallaði yfir mig sjálfur með því að vera að “troða” mér í alla fjölmiðla og reyna að vera áberandi. En af hverju vill einhver vera áberandi í þjóðfélaginu? Ástæðan fyrir því að ég vil vera “frægur” er einfaldlega sú að þá er auðveldara að láta gott af sér leiða.

Með því að vera “frægur” og góður íþróttamaður get ég hjálpað einstaklingum sem að áttu við svipuð vandamál að stríða og ég þegar ég var ungur, ég get hjálpað öðrum íþróttmönnum að ná lengra með því að gefa þeim góð ráð og ég get glatt þá sem eiga um sárt að binda eða eru veikir með því að gefa þeim áritaðar landsliðstreyjur eða styrkt með fjármagni úr mínu fyrirtæki svo að dæmi séu tekin.

 

Í ölllum þessum pælingum er mér litið á höndina á mér sem er þakin bleki… en ég með húðflúr af Íslandi sem að lýsir því hversu ríkt þjóðarstoltið í mér er, er með hluta af Ólympíumedalíunni sem minnir mig á það að ég er góður í handbolta og hversu geggjaðar móttökur við fengum eftir Ólympíuleikana, er með staðsetninguna á faðir vorinu sem er bæn sem ég hef lifað eftir og farið með á hverju kvöldi síðan ég man eftir mér og að lokum er ég Credo (ég trúi á latínu) sem að minnir mig að það að ég trúi á sjálfan mig og trúi á að ég geti komið til með hjálpa liðinu í áframhaldinu og vonandi glatt þjóðina í leiðinni

Ég er ekki að fara að gefast upp!  Það þarf ekkert að vera að ég verji 20 skot í næsta leik og við vinnum næstu 5 leiki og verðum evrópumeistarar… en… ég ætla allavega að að halda áfram að gera mitt besta reyna að gleðja þjóðina og hafa meira gaman af því að vera inná vellinum. Það sem að mig  hefur vantað til þessa er líklega leikgleðin og að ég sé að njóta þess að standa inná vellinum heldur en að vera að stressa mig á því að heil þjóð sé að horfa og að ég sé að bregðast henna og strákunum í liðinu. Ég ætla að byrja að njóta leiksins og brosa meira… fyrir mig, fyrir strákana, fyrir Ísland!

 

Vil þakka öllum stuðninginn og allar þær frábæru kveðjur sem að ég hef fengið í gengum Facebook, tölvupósta, SMS, ofl. Ykkar orð skipta máli og vonandi að þjóðin sé ekki búinn að gefast upp á mér og okkur strákunum í landsliðinu...

 

Áfram Ísland

 

Sponsors

Partners

Instagram #HandballGustavsson

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013