Gustavsson.is - Fréttir - Að komast í landsliðið

  • Islenska
  • Deutch

Að komast í landsliðið

29.10.2013

Að komast í landsliðið er ekkert grín en núna 3. nóvember næstkomandi eru kominn 10 ár síðan ég spilaði minn fyrsta landsleik.

 

Ég heyrði mann einu sinni segja “Heyrðu einn daginn var hann bara allt í einu kominn í landsliðið og bara sem fyrsti markvörður strax”... En þetta var nú ekki svona auðvelt og er landsliðssaga mín langt frá því að vera þannig.

 

Ég hef þurft að hafa fyrir öllu í lífinu og landsliðssæti mitt er engin undantekning. Ég spilaði minn fyrsta landsleik árið 2003 á Ólafsvík (já Ólafsvík) gegn Póllandi og var það gríðarlega skemmtileg upplifun. Þarna var minnir mig verið að vígja nýtt íþróttahús með bláu gólfi og stúkan troðfull bæði af Íslendingum og Pólverjum. Þessi leikur endaði með jafntefli og stóð ég mig bara þokkalega í þær 30 mín sem ég spilaði.

 

Þarna hélt ég að þetta væri komið og myndi bara halda sæti mínu og verði stærri póstur í liðinu með hverjum leiknum, en ég held að flestir ungir graðir leikmenn hugsi svona... En svo var nú aldeilis ekki, þetta var bara mín eldskírn og það sem kom í framhaldinu var mikil barátta.

 

Næstu 5 ár voru endalaus barátta fyrir því að komast inná stórmót en ég spilaði slatta af æfingarleikjum og umspilsleikjum en fékk aldrei sénsinn á stórmótum.

Fyrir EM 2004 fóru 16 leikmenn út til Danmerkur að spila á æfingarmóti og þaðan áttu svo að fara 14 leikmenn á EM í Slóveníu en ég var einn köttaður út og sendur heim þar sem að einhverjir leikmenn voru tæpir, fyrir ÓL 2004 var ég köttaður út úr hópnum eftir langt og erfitt æfingasumar, á EM 2006 í Sviss voru einhver meiðsli hjá markmönnum liðsins á meðan á mótinu stóð og var þá hringt í mig og sagt mér að vera klár... en kallið kom ekki. HM 2007 var svo mót þar sem að íslenska liðinu gekk mjög vel á en féll grátlega úr keppni eftir rosalegan leik við Dani. Á því móti var ég ekki í liðinu heldur en eftir það mót rakst ég á treyju niðrá HSÍ sem var merkt heimsmeistaramótinu og með Gustavsson aftan á. Sú treyja var klár ef kalla þyrfti á mig. Þegar ég sá þessa treyju rann það upp fyrir mér hversu nálægt ég var að komast á stórmót, treyjan var klár en ég var bara ekki í kominn í hana.

 

Næsta ár eða árið 2008 er eitt stærsta ár lífs míns en þá lék ég með Fram. Ég spilaði að mínu mati mjög vel á tímabilinu og taldi mig vera einn af betri markmönnum landsins á þessu tímabili.... Urðum deildarbikarmeistarar, fórum í bikarúrslit og var að finna mig vel. Þegar kom að HSÍ hófinu þá gerði ég mér vonir um að verða valin besti markmaðurinn og fannst mér það mjög mikilvægt. Þegar “stóra stundin” rann upp var ég ekki einu sinni meðal 3 efstu... Þetta voru gríðarleg vonbrigði og lét það skemma fyrir mér HSÍ hófið og fór labbandi heim eins og lítill fúll krakki. Við þessa göngu heim af HSÍ hófinu (í rigningu) rann ansi mikið uppfyrir mér og fór aðeins að sjá hlutina í öðru ljósi. Komst að því að ég væri alltof upptekin af sjálfum mér, ekki nægilega sjálfkrítískur og vottaði fyrir hroka. “Hvaða fífl labbar út af HSÍ hófinu þegar hann er ekki valinn markmaður ársins? Sá gæji þarf nú aðeins að fara í naflaskoðun” hugsaði ég með mér. Eftir þennan dag tók ég mig mikið á og var staðráðinn í að nálgast handboltann með meiri jákvæðni, sjálfsgagnrýni, hlusta á alla í kringum mig og fá hjálp frá öðrum til að verða betri markmaður, reyna að losa mig við allan hroka og breyta honum í sjálfstraust, verða meiri liðsmaður og þar með betri íþróttamaður.

 

Daginn eftir rigningarlabbið mikla mætti ég í gymmið og tók á því og hélt áfram að hugsa allt sem rann í gegnum kollinn kvöldið áður... Ég ætlaði að gera þetta að sumarinu mínu og þar með að sumri landsliðsins í leiðinni. Það sem að gerist svo á næstu 2 mánuðum er lyginni líkast.

Ég er valinn í landsliðið af Gumma Gumm sem að hafði óbilandi trú mér og hafði til að mynda valið mig í landsliðið í fyrsta skipti á sínum tíma árið 2003.

Ég hef aldrei æft eins vel á ævinni eins og þetta sumar en það sem mikilvægara var að ég hef aldrei verið eins fókuseraður á sjálfan mig og liðsmennina í kringum mig. Ég studdi við vel við bakið á hinum markmönnum liðsins til að liðið myndi ná sínum marmiðum og svo að ég fengi líka stuðning frá þeim. Liðið fór til Póllands í undankeppni Ólympíuleikana þar sem að við fórum áfram eftir ævintýralegan sigur á Svíum og Hreiðar markvörður lokaði hreinlega rammanum. Þarna var ég í stúkunni sem einn af stuðningsmönnum okkar og sjaldan verið ánægðari og stoltari af stráknunum okkar. En mig langaði í meira! Mig langaði að standa þarna í rammanum líka...

Það sem að tók við voru strangar æfingar og nokkrir æfingaleikir en það má segja að æfingaleikur við Spán í Vodafone höllinni hafi orðið þess valdandi að ég fékk sæti í íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008. Ól voru mitt fyrsta stórmót og þarf ekki að fara mörgun orðum um hvernig það blessaða mót gekk... en verðlaunapeningur á Ólympíuleikum er eitthvað sem að mig óraði ekki fyrir.

 

Þetta lúkkar allt eins og í einhverri Hollywodd mynd en þann 16. júní 2008 var ég ekki einn af þrem bestu markmönum íslensku deildarinnar og fór í að vera fyrsti markvöður íslenska landsliðisins og með ólympíumedalíu um hálsinn... En eins og meistari Ólafur Stefánsson sagði  “Things turn out best for the people who make the best of the way things turn out” (kvót sem uprunalega er frá John Wooden) en það er akkurat sem ég gerði og breytti sjálfum mér í betri útgáfu af sjálfum mér og má einnig segja að landsliðið á þessum tíma hafi verið akkurat staðurinn fyrir mig en liðið fullkomnaði mig.

 

Eins og sést hér að ofan var þetta löng og ströng barátta að komast í landsliðið og að verða fastamaður, enda miklir meistarar sem hafa verið þar á undan mér. Er því þakklátari fyrir vikið og tek því ekki sem gefnu að verða valin þrátt fyrir að hafa verið í liðinu síðast. Draumurinn er að spila með landsliðiinu í 10 ár í viðbót og fá að njóta þess að vera í íslenska búningnum... Allavega náði Gummi Hrafnkels háaum aldri og er mjög stoltur af því að hafa náð nokkrum leikjum með gamla manninum, en þess má geta að hann er 2 árum eldri en móðir mín..

Sponsors

Partners

Instagram #HandballGustavsson

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2013